“Crochet gives me an inner peace that I treasure each and every day.” – Judith Ferrett

Saturday, September 29, 2012

Tröppustóll fær nýtt líf !


Gömlu eldhússtólarnir voru orðnir svooo þreyttir og ég veit ekki hversu oft ég hef þurft að stíga á þá til að komast uppí efstu skápana í eldhúsinu. Við fengum okkur nýja eldhússtóla um daginn og ég var alveg ákveðin í því að ég myndi ekki nota þá til að stíga á. Ég keypti mér Bekvam tröppustól í Ikea og gaf honum nýtt líf !


Keypti orange bæs í Byko og svamp pensil.


Bæsaði stólinn með hjálp Nikulásar, hann var annað hvort rífa niður allan klósettpappírinn og henda í klósettið eða inní skápnum undir vaskinum að opna allar ilmvatnsprufur sem eru þar í körfu *andarp*



Notaði kvöldið/nóttina á undan til að pæla í útfærslu, litum og munstri, mældi og skar út skrapp pappír. Einnig er hægt að nota veggfóður, gamal eða nýtt en ég var hrifnari af skrapp pappírnum.



Búin að líma skrapp pappírinn með föndurlími og betri helmingurinn minn spreyjaði stólinn með glæru lakki.



Ótrúlega ánægð með stólinn og hann á sko heldur betur eftir að nýtast vel á þessu heimili ! :)

Friday, September 28, 2012

Heklað utan um koll




Nú er ég komin með smá dellu fyrir kollum, fannst að Marius kollinum frá Ikea yrði frekar kalt í vetur svona ber þannig að ég heklaði utan um sessuna.

Fann þessa uppskrift hér, á hollenskri síðu og það var frekar erfitt að skilja uppskriftina þrátt fyrir þýðingu yfir á ensku, en það eru ótrúlega góðar myndir á blogginu og það voru alveg nógu góðar leiðbeiningar fyrir mig ! J.

Ég átti til garn frá Dale sem ég ætlaði upphaflega að nota í teppi en svo hefur þetta bara legið í körfu hjá mér þangað til núna.

Um helgina ætla ég að gefa öðrum koll smá líf, ætla að bæsa tröppukoll og föndra úr skrapp pappír til að setja í tröppurnar, kemur blogg um leið og hann er tilbúinn ! :)

Sunday, September 23, 2012

Fyrsta teppið mitt !






Fékk loksins tíma núna um helgina til að klára að hekla utan um teppið og ganga frá cirka 250 endum *úff* það er alveg á hreinu að í næsta teppi verð ég búin að læra hvernig á að ganga frá endum jafnóðum. Reyndar náði ég að ganga frá nokkrum endum þegar ég var að hekla kantinn.

Þessa uppskrift fékk ég frítt hjá Adele , ótrúlega góðar leiðbeiningar.
Garnið heitir Woolcott úr Rúmfatalagernum.

Monday, September 17, 2012

Grillaðar kjúklingalundir



Ég maríneraði kjúklingalundir, notaði cirka;

1 bolla af olíu
2-3 msk balsamedik
5 hvítlauksrif (skorið í þunnar sneiðar)
1 rautt chilli
1 „lúka“ steinselja
½ tsk arabískar nætur
½ tsk papríkukrydd
salt & pipar

Bjó til pestó og í það fór;

1 búnt basilíka
2 msk ristaðar furuhnetur
2 msk rifinn parmesanostur
2 – 3 hvítlauksgeirar
1 - 1½ dl ólífuolía
Salt & nýmalaður pipar

Með þessu bar ég fram Moroccan style cous cous og fersk salat og fór í huganum í smá ferðalag :)

Thursday, September 13, 2012

Afmælis......


Bergdís vinkona segir allavegana að það sé þannig og mér líður stórkostlega vel og er yfir mig ástfangin og hamingjusöm enda ekki annað hægt þegar maður fær bónorð frá sínum heittelskaða í morgunsárið.
Dagurinn er búinn að vera frábær fram að þessu og verður pottþétt áfram, búin að fá endalausar kveðjur, símimm stoppar ekki og vinnufélagarnir búin að knúsa mig í klessu. Í kvöld koma báðar fjölskyldurnar í mat og trúlofunin formlega tilkynnt og haldið upp á FERTUGS AFMÆLIÐ !


 ~Bollakökur með marskremi~

 Ungversk gúllassúpa, sjávarréttarsúpa, baguette og sushí-ið vantar á myndina.

Nikulás litli gullmolinn minn <3

Sunday, September 9, 2012

Gæsabringur og bláberjasósa




Fyrstu gæsabringurnar komnar í hús en gæsaveiði tímabilið er ný byrjað og minn betri helmingur fær ótakmarkað leyfi til að fara til fjalla og veiða til matar :) Algjört sælgæti bæði steiktar og grafnar gæsabringur.




Brokkolí og snjóbaunir í sesamsósu
2 msk olía
2 meðalstórir spergilkálshausar, skornir í litla bita
½ pakki snjóbaunir
Salt og nýmalaður pipar

Aðferð
Hitið olíu í wok-pönnu eða stórri pönnu og steikið spergilkál í 2 mín, án þess að brenna. Bætið snjóbaunum á pönnuna ásamt sesamsósu og blandið vel saman, smakkið til með salti og pipar.

Sesamsósa
2 msk hunang
2 msk ljóst edik
2 msk sojasósa
2 smak sesamfræ, ristuð
1 tsk sesamolía
Salt og nýmalaður pipar
3 msk olía

Aðferð
Setjið allt nema olíu í skál og blandið vel saman. Bætið olíunni saman við í smáum skömmtun og hrærið vel í á meðan.




Sætar kartöflur, kryddaðar með sjávarsalti, nýmöluðum pipar, kúmen, basil og kirsuberjatómötum. Geggjað að setja gráðost rétt eftir að kartöflurnar koma úr ofninum en krakkarnir eru ekkert allt of hrifin af honum þannig að hann er á disk til hliðar.



Önd, teriyakí maríneruð gæs, salt og pipar krydduð gæs og bláberjasósa.

Bláberjasósa
2-3 skallottlaukar
3 msk olía
½ tsk timjan
1 dl púrtvín
1 msk balsamedik
1 dl bláber
1-2 msk bláberjachutney
4 dl villibráðarsoð
30 gr kalt smjör í tenigum
Salt og pipar

Aðferð
Látið lauk krauma í olíu í potti í 1 mínútu. Bætið þá timjani, púrtvíni, ediki, bláberum, bláberjachutney saman við og sjóðið niður um ¾. Hellið villibráðarsoði í pottinn.

Setjið sósuna í matvinnsluvél, bætið smjöri út í og maukið vel. Setjið sósuna því næst aftur í pottinn og hitið að suðumarki.

Bláberjachutneyið fékk ég hjá vinkonu minni sem er nýburjuð að skrifa pistla á timarim.is undir Heimili og fékk hún mig til að stílfæra krukkurnar og taka myndir.


Thursday, September 6, 2012

Grænmetis- og baunasúpa



Haustið er komið með allar sínar tilheyrandi lægðir og á sama tíma er vel við hæfi að hefja súputíðina.

Ég man ekki hvar ég fékk þessa uppskrift en hún hefur fylgt mér lengi og virðist aldrei vera nákvæmlega eins,  það fer alveg eftir hvað er til í ísskápnum af grænmeti og hvernig stuði ég er í.
Einnig er gott að búa til kóríanderpestó og setja í súpuna eftir eldun, en ég læt grunn uppskriftina fylgja með.

Það sem var öðruvísi í dag var að ég átti ekki til blaðlauk og gleymdi að setja lárviðarlaufið og svo átti ég til ferska steinselju sem hver og einn setti útí sjálfur. Ég fór í pólsku búðina „Mini Market“ uppí efra Breiðholti því ég átti leið uppí Sorpu og keypti þar pólskar steik- og grillpylsur.

Hráefni
1 laukur, saxaður
1 blaðlaukur, sneiddur
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
3 cm engiferrót, gróft rifin
Olía til steikingar
½ tsk túrmerik
½ tsk kanill
½ tsk engiferduft
1 tsk arabískar nætur
1 ½ l vatn
2 tsk grænmetiskraftur
2 dósir hakkaðir tómatar
150 gr þurrkaðar linsubaunir
1 lárviðarlauf
1 msk hunang
Sjávarsalt og nýmalaður pipar

Aðferð
Steikið lauka og engifer í olíu, setjið þurrkrydd saman við og steikið áfram í 1 mín. Bætið öllum öðrum hráefnum í pottinn og látið súpuna sjóða í 30 mín. Steikið pylsurnar á pönnu þangað til þær verða stökkar að utan, skerið þær í sneiðar og bætið út í súpuna.

Njótið !

Vonbrigði dagsins !



Ég er búin að vera að leyta að Tandoori kryddinu frá RAJAH í allt sumar, mágkona mín kom með dollu uppí sumarbústað í byrjun sumarsins og eftir það var ég heltekin af kryddinu.
Ég er búin að leyta í öllum matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu og fékk það svar í einni versluninni að kryddið væri sennilega uppselt hjá birgjanum erlendis.
Fór að tala um þetta í vinnunni í gær og Ásta sem ég er að vinna með ætlaði að tala við vinkonu sína sem vinnur hjá heildsölunni sem flytja inn RAJAH kryddin.
Svo fékk ég þær fréttir að RAJAH er hætt að framleiða Tandoori kryddið ! *grát*


Picanta kryddið hvarf úr matvöruverslunum fyrir nokkrum árum síðan, þetta krydd nota ég í „BESTU“ sjávarréttasúpuna og þar sem ég ætla að nota það fljótlega fór ég að leyta eftir því.
Sólveig okkar sem sér um eldhúsið í vinnunni setti sig í samband við heildsölu sem hún þekkir til og þetta krydd er víst ekki lengur til á Íslandi, ætla að reyna að finna út hvað ég gæti notað í staðinn fyrir Picanta kryddið...

Tuesday, September 4, 2012

Skref 4 - Búin að hekla utan um doppurnar




Gaman að sjá hvernig teppið kemur út og ég er bara frekar ánægð með litina og samsetninguna. Nú er að finna aðferð við að festa ferningana saman og hekla utan um teppið og ákveða hvernig kant ég vil fá, hugsi hugsi hugs..

Monday, September 3, 2012

Mánudags-kjúklinga-pastasalat



Ágætt að hafa léttan mat á virkum dögum og helst eitthvað sem er fljótleg sérstaklega þegar maður er með lítinn Nikulás í aðlögun á leikskóla sem tekur mikið á mömmuhjartað.

Stundum þegar ég hef lítinn tíma þá kaupi ég tilbúinn grillaðan kjúkling í Þinni verslun en í dag grillaði ég hann sjálf sem er auðvitað alltaf best.

Ég kryddaði kjúklinginn með „Bezt á kjúkling“ stakk hálfri sítrónu inní fuglinn ásamt hálfum lauk og sauð fiðrildapasta. Skar niður blaðlauk, papríku, sykurbaunir og gulrætur, blandaði svo öllu saman í skál og bætti við gulum baunum, fersku blönduðu salati og fetaosti.

Mér finnst ágætt þótt kjúklingurinn sé mjög safaríkur eftir eldun að hella smá soði yfir kjúklinginn þegar ég er búin að tæta hann niður áður en ég blanda honum út í salatið. Bara ágætis mánudags kjúklingapastasalat ! :)

Sunday, September 2, 2012

Er að drukkna í garni !



Ég fór í gegnum garnið mitt í dag og ég er bókstaflega að drukkna í garni, þetta var komið á víð og dreif um alla íbúð og ég átti ekki annað val en að sortera og skipulleggja garnið. Hvernig ætli þetta sé hjá þeim sem eru búin að hekla eða prjóna í mörg ár ?! :)